Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs
Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs var stofnuð 27. febrúar 2017. Sveitin samanstendur af nemendum og kennurum tónlistarskólanna á Fljótsdalshéraði auk annarra blásturs- og slagverkshljóðfæraleikara á svæðinu. Þetta er áhugamannahljómsveit sem stuðlar að aukinni þátttöku almennings í tónlistarlífinu á Héraði, bæði sem hljóðfæraleikarar og áhorfendur, og stuðlar að samveru kynslóðanna í uppbyggilegu tónlistarstarfi. Hljómsveitin kemur reglulega fram við ýmis tilefni, bæði innan og utandyra. Nokkur nýleg dæmi eru Stuðstrætó á Ormsteiti, 17. júní hátíðarhöld á Egilsstöðum og þrettándagleði Hattar. Á Íslandi, sem og víðar, er löng hefð fyrir því að kalla til lúðrasveit við slík tilefni og er góð lúðrasveit hverri byggð til sóma. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Sóley Þrastardóttir.
Hvenær og hvar eru æfingar?
Lúðrasveitin æfir á mánudagskvöldum kl. 20:00 í tónmenntastofunni í Egilsstaðaskóla á meðan skólastarf er í gangi og hefur aukaæfingar eftir þörfum fyrir spilamennskur.
Hverjir geta verið með?
Allir þeir sem eru þrettán ára og eldri og eitthvað kunna á tréblásturs-, málmblásturs- eða slagverkshljóðfæri eru velkomnir í sveitina. Þeir sem eru áhugasamir geta sent fyrirspurn til Sóleyjar Þrastardóttur (soley.thrastardottir@mulathing.is) eða bara mætt á mánudagskvöldi! Þátttaka er ókeypis.